Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál Nr. 520/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 520/2023

Miðvikudaginn 17. janúar 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. október 2023, kærði A, B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. september 2023 um að synja umsókn kæranda um ellilífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Þann 22. ágúst 2023 barst Tryggingstofnun ríkisins umsókn kæranda um ellilífeyri. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. september 2023, var kæranda synjað um ellilífeyri á þeim grundvelli að kærandi hefði verið tryggður og þegið bætur frá B á því tímabili sem hann hafi verið með skráða búsetu á Íslandi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. október 2023. Með bréfi, dags. 31. október 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 22. nóvember 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. nóvember 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er vísað í ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um ellilífeyri.

Samkvæmt kærðri ákvörðun hafi kærandi verið skráður á Íslandi annars vegar frá 24. október 2007 til 31. október 2008 og hins vegar frá 25. apríl 2014 til 12. desember 2015. Með vísun í skjal frá Festi þá segir í kæru að kærandi hafi unnið á Íslandi og lífeyrisframlag hafi verið greitt annars vegar frá 24. október 2007 til 31. október 2008 og hins vegar frá 26. september 2011 til 11. desember 2015.

Í kærðri ákvörðun komi fram að ellilífeyrir geti eingöngu verið greiddur frá einu landi og að á þessum grundvelli hafi honum verið neitað um greiðslur frá Íslandi.

Kærandi vísar til þess að framlag sem hann hafi greitt í tryggingakerfið í B á meðan hann hafi verið að vinna og búið á Íslandi hafi verið valkvæðar greiðslur, viðbótargreiðslur í fjölþrepa tryggingakerfið í B sem sé ólíkt skyldubundnum greiðslum sem dregnar hafi verið af launum hans á Íslandi.

Ástæða þess að framangreind ákvörðun sé kærð sé sú að þar sem framlag kæranda í B hafi ekki verið skyldubundnar greiðslur í lífeyriskerfið, ætti það ekki að skipta neinu máli varðandi lífeyrisgreiðslur frá Íslandi.

Kærandi spyr hve miklar greiðslu hann ætti rétt á í ellilífeyrir frá skyldubundnum lífeyrissjóðum ef upphaf greiðslna myndi vera frá 7. janúar 2024, 7. janúar 2025, 7. janúar 2026 og 7. janúar 2027.

Í B sé hægt að byrja töku ellilífeyris 63 ára og því sé misræmi á milli þessara tveggja landa.

Samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sé heimilt að endurgreiða iðgjöld til erlendra ríkisborgara þegar þeir flytjist úr landi, enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningi sem Ísland sé aðili að. Í 3. mgr. sömu greinar segi að ef um lágar fjárhæðir sé að ræða þá sé heimilt að greiða þau í einu lagi. Kærandi spyr hvort það hafi áhrif á greiðslur ellilífeyris til hans þegar hann verði 67 ef hann fái slíka eingreiðslu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun, dags. 28. september 2023, þar sem umsókn um ellilífeyri hafi verið synjað þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði greiðslna.

Lagaskilyrði og ávinnsla ellilífeyris komi fram í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar en þar komi fram að réttur til ellilífeyris öðlist þeir sem hafi náð 67 ára aldri og hafi verið tryggðir hér á landi að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnist með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16-67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyrirs í hlutfalli við búsetutímann. Einnig sé vikið að því í 2. mgr. sömu greinar að taka skuli tillit til tryggingar-, starfs- eða búsetutímabila sem lokið sé samkvæmt löggjöf annars samningsríkis, að því marki sem nauðsynlegt sé og í samræmi við nánari ákvæði gagnkvæms milliríkjasamnings, sbr. 59. gr., til að fullnægja skilyrði 1. málsl 1. mgr., enda hafi umsækjandi verið tryggður samkvæmt lögunum í að minnsta kosti eitt ár.

Samkvæmt 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar sé búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Í lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur komi fram í 2. gr. laganna að lögheimili sé sá staður þar sem einstaklingur hafi fasta búsetu og ekki sé heimilit að eiga lögheimili á Íslandi á fleiri en einum stað í senn. Óheimilt sé einnig að eiga lögheimili á Íslandi eigi viðkomandi lögheimili erlendis.

Í 45. gr. laga um almannatryggingar sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli jafnframt leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, um þau gögn sem þurfi að fylgja með umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Sótt hafi verið um ellilífeyri til Tryggingastofnunar frá B í gegnum EESSI/RINA kerfi með vottorði P2000 (umsókn um ellilífeyri), dags. 22. ágúst 2023, með ósk um að fá vottorð P5000 (Búsetutímabil Insurance/residence periods) og P6000 (ákvörðun um lífeyri/Pension decision) senda til baka.

Tryggingastofnun hafi svarað stofnun í B með vottorðum P5000 og P6000, dags. 29. september 2023, í EESSI/RINA kerfi. Í áðurnefndum vottorðum komi fram að kærandi eigi ekki rétt á ellilífeyri frá Tryggingastofnun og vísað hafi verið til þess að ekki sé hægt að vera tryggður í tveimur löndum fyrir sama tryggingatímabil.

Tryggingastofnun hafi sent kæranda bréf, dags. 28. september 2023, þar sem fram hafi komið að til að eigi rétt á lífeyri þurfi að minnsta kosti eins árs búsetu hér á landi til að geta átt rétt á ellilífeyri þ.e.a.s. ef viðkomandi geti sýnt fram á tryggingatímabil í öðru EES landi, sbr. samlagningarreglu, sem ákvörðuð sé í EB reglugerð nr. 883/2004. Einnig komi fram í áðurnefndu bréfi að einstaklingur geti ekki verið tryggður í fleiri en einu landi á sama tíma fyrir sama tryggingatímabil. Þar segi enn fremur að kærandi hafi verið skráður á Íslandi annars vegar á tímabilinu 24. október 2007 til 31. október 2008 og hins vegar frá 25. apríl 2014 til 12. október 2015. Samkvæmt upplýsingum frá C (Social Insurance í B) hafi kærandi einnig verið tryggður í B og með greiðslur þaðan fyrir sama tímabil og hann hafi verið skráður með lögheimili hér á landi. Samkvæmt EB reglugerð nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa sé kveðið á um það í 11. gr. reglugerðarinnar að einstaklingar sem reglugerðin nái til skuli aðeins heyra undir löggjöf eins aðildarríkis hverju sinni. Í ákvæði 4. tölul. 12. gr. framkvæmdareglugerðar EB nr. 987/2009 komi fram að skarist trygginga- eða búsetutímabil, annað en jafngilt tímabil sem lokið sé samkvæmt löggjöf aðildarríkis, við jafngilt tímabil á grundvelli löggjafar annars aðildarríkis skuli einungis meta það tímabil sem sé ekki jafngilt tímabil.

Þar sem kærandi hafi verið tryggður í B á tímabilinu 24. október 2007 til 31. október 2008 og frá 25. apríl 2014 til 12. október 2015 samkvæmt vottorðum frá B geti hann ekki áunnið sér frekari rétt í félagslega tryggingakerfinu, þ.e.a.s. hjá Tryggingastofnun, en að sama skapi þá hafi hann áunnið sér rétt til greiðslu á lífeyri úr atvinnutengdum lífeyrissjóðum sem hann hafi greitt í.

Synjun Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um ellilífeyri sé vegna þess að kærandi hafi verið tryggður í B fyrir sama tímabil og óskað hafi verið eftir greiðslum hjá Tryggingastofnun. Þegar erlenda stofnunin hafi sótt um ellilífeyri fyrir kæranda hjá Tryggingastofnun þá hafi hann heldur ekki verið búinn að ná þeim aldri sem þurfi til að sækja um ellilífeyri. Kærandi sé fæddur X og sé því einungis X ára og hafi auk þess heldur ekki uppfyllt þau lagalegu skilyrði til að fá ellilífeyri, þ.e.a.s. að lágmarki við 65 ára aldur, þ.e.a.s. snemmtaka lífeyris, né að vera orðinn 67 ára gamall. Til að klára allt umsóknarferlið fyrir kæranda hafi Tryggingastofnun áframsent umsókn kæranda til lífeyrissjóðanna svo að þeir gætu tekið fyrir umsókn kæranda og ákvarðað um lífeyri til handa honum þegar þar að komi.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi hafi greitt í lífeyrissjóð hér á landi þegar hann hafi verið við vinnu og eigi réttindi hjá Festi lífeyrissjóði. 

Varðandi þær athugasemdir sem kærandi hafi varðandi tryggingatímabil og vinnutímabil á Íslandi þá hafi Tryggingastofnun aflað sér upplýsinga um búsetusögu kæranda.

Tryggingstofnun geti ekki breytt lögheimili kæranda né leiðrétt skráningu hans þar sem Þjóðskrá sjái alfarið um að skrá einstaklinga með lögheimili hér á landi. Hins vegar breyti það ekki niðurstöðu í máli kæranda þar sem kærandi hafi verið skráður í tryggingar í B á þeim tíma sem hann hafi verið að vinna á Íslandi. Sú vinna gefi honum lífeyrisréttindi frá atvinnutengdum lífeyrissjóði, nánar tiltekið Festi, þegar kærandi muni ná ellilífeyrisaldri. Hins vegar gefi það honum ekki rétt til lífeyris hjá Tryggingastofnun þar sem kærandi hafi þá þegar verið með félagslegan lífeyri frá B. Einstaklingur geti ekki notið félagslegs lífeyris fyrir sama tryggingatímabil, sbr. eins lands löggjöf samkvæmt reglugerð EB nr. 883/2004. Kærandi hafi verið með lífeyrisgreiðslur frá B þegar hann hafi tekið upp búsetu hér á landi og hafi farið að vinna hér á landi tímabundið.

Í máli þessu sé kærð niðurstaða Tryggingastofnunar um ellilífeyri til handa kæranda. Tryggingastofnun hafi synjað kæranda um ellilífeyri þar sem hann hafi verið tryggður í B á því vinnutímabili sem um ræðir í málinu. Tryggingastofnun hafi fært rök fyrir því að einstaklingur geti ekki áunnið sér tryggingaréttindi í öðru landi á sama tíma og hann sé í tryggingum í öðru landi, sbr. reglurnar um eins lands löggjöf í EB reglum um framkvæmd almannatrygginga á EES svæðinu nr. 883/2004, sbr. EB framkvæmdareglugerð nr. 987/2009. Að auki þá uppfylli kærandi heldur ekki rétt til ellilífeyris þar sem hann uppfylli ekki þau aldursskilyrði sem þurfi til að geta sótt um ellilífeyri samkvæmt lögum um almanantryggingar. Með vísan til framangreinds telji Tryggingastofnun að synjun á ellilífeyri og áframsend umsókn um ellilífeyri til atvinnutengdra lífeyrissjóða hafi verið rétt ákvörðun og í samræmi við lög um almannatryggingar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. september 2023 á umsókn kæranda um ellilífeyri.

Í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rétt til ellilífeyris öðlist þeir sem hafi náð 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla laganna, að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnist með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Um sveigjanlega töku ellilífeyris er fjallað um í 19. gr. laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. þeirrar greinar segir:

„Heimilt er að hefja töku ellilífeyris frá 65 ára aldri gegn varanlegri lækkun lífeyrisins, sbr. 2. mgr. 20. gr. Heimild þessi er bundin því skilyrði að samþykkt hafi verið umsókn um greiðslu lífeyris samkvæmt áunnum réttindum hjá öllum skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindum lagaákvæðum að það sé skilyrði fyrir greiðslum ellilífeyris að umsækjandi sé 67 ára eða að lágmarki 65 ára ef um snemmtöku lífeyris sé að ræða. Fyrir liggur að kærandi var 63 ára gamall þegar hann sótti um ellilífeyri og er 64 ára í dag. Því er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði fyrir greiðslum ellilífeyris sökum aldurs. Engin heimild er til að víkja frá framangreindum aldursskilyrðum.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um ellilífeyri staðfest.

Varðandi fyrirspurn kæranda um hve miklar greiðslu hann eigi rétt á að fá í ellilífeyrir frá skyldubundnum lífeyrissjóðum telur úrskurðarnefndin rétt að benda kæranda á að leita til viðkomandi lífeyrissjóðs til að fá slíkar upplýsingar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um ellilífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum